Ferill 690. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Prentað upp.

Þingskjal 1242  —  690. mál.
Leiðrétting.

2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna hækkunar lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs (lágmarkstryggingavernd, tilgreind séreign o.fl.).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðrúnu Þorleifsdóttur, Önnu Valbjörgu Ólafsdóttur og Tinnu Finnbogadóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Drífu Snædal og Þóri Gunnarsson frá Alþýðusambandi Íslands, Hrannar Má Gunnarsson og Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur frá BSRB, Guðmund Ásgeirsson og Hafþór Ólafsson frá Hagsmunasamtökum heimilanna, Elínu Ölmu Arthursdóttur, Fanneyju Steinsdóttur og Magnús Braga Ingólfsson frá Skattinum, Jón Ævar Pálmason, Guðmund Óla Blöndal, Jónas Þór Brynjarsson og Björk Sigurgísladóttur frá Seðlabanka Íslands, Helga Pétur Magnússon frá Almenna lífeyrissjóðnum, Snædísi Ögn Flosadóttur frá Eftirlaunasjóði FÍA og Arion banka hf., Arnald Loftsson frá Frjálsa lífeyrissjóðnum, Þóreyju S. Þórðardóttur frá Landssamtökum lífeyrissjóða, Valmund Valmundsson frá Sjómannasambandi Íslands, Guðmund Helga Þórarinsson frá VM – Félagi vélstjóra og málmtæknimanna, Árna Sverrisson og Árna Bjarnason frá Félagi skipstjórnarmanna, Magnús Þór Jónsson og Ragnar Þór Pétursson frá Kennarasambandi Íslands, Halldóru Káradóttur frá Reykjavíkurborg, Gerði Guðjónsdóttur og Þóru Jónsdóttur frá Brú – lífeyrissjóði og Vilhjálm Birgisson frá Verkalýðsfélagi Akraness.
    Umsagnir bárust frá Almenna lífeyrissjóðnum, Alþýðusambandi Íslands og Samtökum atvinnulífsins, Arion banka hf., Bandalagi háskólamanna, Brú – lífeyrissjóði starfsmanna sveitarfélaga, BSRB, Eftirlaunasjóði FÍA, Frjálsa lífeyrissjóðnum, Hagsmunasamtökum heimilanna, Íslenska lífeyrissjóðnum, Kennarasambandi Íslands, Landssamtökum lífeyrissjóða, Reykjavíkurborg, Seðlabanka Íslands, Sjómannasambandi Íslands, VM – Félagi vélstjóra og málmtæknimanna og Félagi skipstjórnarmanna, Skattinum, Verkalýðsfélagi Akraness og Þóru Jónsdóttur.
    Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar er varða lífeyrissjóði:
    Í fyrsta lagi er lögð til hækkun lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs úr 12% í 15,5%.
    Í öðru lagi er lágmarkstryggingavernd hækkuð úr 1,4% í 1,8% af iðgjaldsstofni á ári.
    Í þriðja lagi er lagt til að mælt verði fyrir í lögum um svokallaða tilgreinda séreign, sem geti numið allt að 3,5%, sem verði þó hluti lágmarkstryggingaverndar. Í sjóðum sem bjóða upp á tilgreinda séreign og í sjóðum þar sem veitt er viðbótartryggingavernd á grundvelli lágmarksiðgjalds getur lágmarkstryggingavernd þó áfram verið 1,4%.
    Í fjórða lagi mun sjóðum sem bjóða sjóðfélögum að ráðstafa hluta lágmarksiðgjalds til viðbótartryggingaverndar verða heimilt, að svo stöddu, að veita lágmarkstryggingavernd sem nemur 1,4% af iðgjaldsstofni á ári, í stað 1,8%.
    Í fimmta lagi eru ákvæði sem ætlað er að jafna rétt lífeyrisþega til greiðslna frá almannatryggingum.
    Í sjötta lagi er lagt til að á meðan í kjarasamningi sé enn kveðið á um 12% iðgjald til lífeyrissjóðs sé heimilt að miða áfram við þá hlutfallstölu þar til aðilar hafi náð saman um breytta hlutfallstölu í viðkomandi kjarasamningi. Eftir það beri að miða lágmarksiðgjald við 15,5%.
    Í sjöunda lagi er lagt til að sjóðfélögum verði heimiluð skattfrjáls ráðstöfun tilgreindrar séreignar til kaupa á fyrsta íbúðarhúsnæði og að þeim sem ekki hafa verið eigendur að íbúðarhúsnæði í fimm ár frá því að umsókn um ráðstöfun kemur fram verði heimilað að nýta sömu séreignarsparnaðarúrræði og kaupendum fyrstu íbúðar að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
    Loks er að finna tillögur að breytingum á lögum um tekjuskatt og lögum um almannatryggingar í samræmi við framangreindar breytingar.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Fyrirliggjandi frumvarp byggist að stórum hluta á lífskjarasamningi frá apríl 2019 og stuðningsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar við þann samning. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur auk þess fram að lögfesta eigi 15,5% skylduiðgjald til lífeyrissjóða að höfðu samráði við aðila vinnumarkaðarins um útfærsluna. Líkt og rakið er í greinargerð var slíkt samráð viðhaft og hafa aðilar vinnumarkaðarins lýst yfir ánægju með málið í Samráðsgátt stjórnvalda sem og fyrir nefndinni. Fyrir nefndinni kom þó einnig fram gagnrýni á frumvarpið og að samráð hefði ekki verið haft við fleiri hagaðila, t.d. lífeyrissjóði. Þeim sjónarmiðum var m.a. hreyft að fresta ætti breytingunum þar til heildarendurskoðun lífeyriskerfisins hefði farið fram.
    Meiri hlutinn bendir á að þegar hefur verið komið til móts við hluta þeirra athugasemda sem fram komu við málið á fyrri stigum þó að ljóst sé að ekki er eining um það hjá öllum hagaðilum. Um er að ræða brýnt mál sem er m.a. ætlað að ljúka samræmingu lífeyrisréttinda á öllum vinnumarkaðnum og stuðla að sjálfbærni lífeyriskerfisins þannig að hver kynslóð standi undir eigin lífeyrisréttindum. Líkt og fram kemur í greinargerð hefur hærra lágmarksiðgjald í för með sér aukinn lífeyrissparnað sem nemur allt að 8 milljörðum kr. á ársgrundvelli. Með lögfestingu skylduiðgjalda í 15,5% mun réttindaávinnsla hækka og verða um það bil 72% af meðaltekjum sé miðað við 40 ára inngreiðslutímabil, miðað við jafna ávinnslu, en í dag er réttindaávinnsla miðað við 12% skylduiðgjald 56% af meðalævitekjum.
    Íslenska lífeyriskerfið er orðið gríðarlega öflugt og til merkis um það varð Ísland í fyrsta sæti á lista Mercervísitölunnar á síðasta ári yfir bestu lífeyriskerfi í heimi ásamt Hollandi og Danmörku. Það er mikilvægt að áfram verði unnið að því að styrkja stoðir íslenska lífeyriskerfisins og þetta frumvarp er liður í því.
    Þó svo að heildarendurskoðun lífeyriskerfisins standi fyrir dyrum er ekki unnt að láta þetta mál bíða hennar vegna þeirra gríðarlegu hagsmuna sem liggja að baki en meiri hlutinn leggur þó áherslu á að það komi til áframhaldandi skoðunar í þeirri vinnu sem stendur fyrir dyrum hjá ríkisstjórninni og verði tekið á því í umfjöllun grænbókar um lífeyrismál sem boðuð er í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Í umsögn Skattsins eru gerðar athugasemdir við 8. gr. frumvarpsins sem snýr að breytingu á lögum um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð. Telur stofnunin að ýmis atriði í ákvæðinu þarfnist frekari skýringa, svo sem hvað átt sé við með hugtakinu „fullnýtt“ og að skýra þurfi betur hvað átt sé við með að heimildin gildi ekki um hjón eða einstaklinga sem uppfylla skilyrði til samsköttunar og er þar vísað til fjölbreytilegra aðstæðna einstaklinga. Meiri hlutinn telur nauðsynlegt að komið verði til móts við þau atriði sem fram koma í umsögninni og mælist til þess að í endurskoðun á reglugerð um úrræðið, sem nauðsynleg er vegna lagabreytingarinnar, verði kveðið á um þessi atriði með skýrari hætti. Þá telur meiri hlutinn tilefni til að leggja til þá breytingu að skýrlega verði tekið fram að lífeyrissjóðum beri að áskilja upplýst samþykki þegar sjóðfélagi óskar eftir ráðstöfun skylduiðgjalds í tilgreinda séreign. Meiri hlutinn telur nærtækast að lífeyrissjóðum beri að kveða á um þetta í samþykktum sínum. Með upplýstu samþykki er átt við að einstaklingur lýsi sig formlega samþykkan, hafi kynnt sér réttindi sín, skilji hvað hann er að samþykkja og þekki afleiðingar þess.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:

    3. efnismálsl. b-liðar 2. gr. orðist svo: Í samþykktir lífeyrissjóðs skulu sett nánari ákvæði um tilgreinda séreign, svo sem um ráðstöfun iðgjalds, upplýst samþykki sjóðfélaga um ráðstöfunina og tilhögun greiðslna.

Alþingi, 11. júní 2022.

Guðrún Hafsteinsdóttir,
form., frsm.
Ágúst Bjarni Garðarsson. Diljá Mist Einarsdóttir.
Guðbrandur Einarsson. Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir. Steinunn Þóra Árnadóttir.